Undir merkinu hefur verið byggð upp þekking og dýrmæt tengsl við markaðssetningu erlendis. Vörumerkið er með sterka stöðu á alþjóðavísu, hefur tengsl við íslenska náttúru, gæði og lifandi sögu. Mikil vinna hefur verið lögð í að útvíkka vörumerkið Icelandic svo það geti stutt við ýmiskonar starfsemi. Því er ætlað að verða gæðamerki fyrir íslenskar vörur á erlendum markaði. Íslenskir framleiðendur sem hyggja á útflutning geta nýtt sér þá miklu þekkingu og reynslu sem safnast hefur saman í kringum vörumerkið Icelandic að uppfylltum vissum skilyrðum.
Hugtökin íslenskt og Íslendingur eru mótuð af nánd við fagra en um leið hrjóstruga náttúru, stór og eldspúandi fjöll, ár og læki af öllum stærðum, jökla og úfin hraun. Óblíð náttúruöflin láta iðulega finna fyrir sér, alltumlykjandi hafið í kringum eyjuna okkar hefur gefið og tekið í gegnum aldirnar. Þessi bakgrunnur er okkar sameiginlegi þráður þó við upplifum hann og landið okkar hvert á sinn hátt.
Það er greypt í þjóðarsál okkar að vera vandvirk, útsjónarsöm, harðdugleg, nýtin og stolt. Öðruvísi er ekki hægt að komast af í þessu harðbýla landi. Persóna og tónn Icelandic vörumerkisins er mótuð af íslenskri náttúru, lífsbaráttu okkar og sögu í gegnum aldirnar.
Úr þessu hrjúfa umhverfi eru hornsteinar vörumerkisins Icelandic sprottnir.
Persóna og tónn vörumerkisins byggir á tengslunum við íslenska náttúru, lífsbaráttu okkar og sögu í gegnum aldirnar.
Vörur sem bera Icelandic-merkið eru „fulltrúar hreinleika“, þær eru íslenskar hágæðavörur með mikla sérstöðu og framleiðsla þeirra er háð lögmálum um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Þess vegna þurfa þeir framleiðendur sem vilja nota sér merkið að rísa undir þeim kröfum.